Olíufélög greiði bætur

Hæstiréttur hefur dæmt olíufélögin þrjú, Ker, Skeljung og Olís, til að greiða Reykjavíkurborg tæpar 73 milljónir króna í bætur vegna tjóns, sem borgin varð fyrir vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna. Þá dæmdi Hæstiréttur olíufélögin til að greiða Strætó bs. tæpar 6 milljónir í bætur.

Staðfesti Hæstiréttur með þessum dómum dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðnir voru upp á síðasta ári.

Málið sem Reykjavíkurborg höfðaði var vegna útboða á olíuvörum fyrir Strætisvagna Reykjavíkur og Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar á árunum 1993, 1996 og 2001. Var tilboði Skeljungs tekið í útboðum 1993 og 1996 en tilboði Olís í útboði 2001.

Samkeppnisstofnun komst m.a. að þeirri niðurstöðu á sínum tíma, að olíufélögin þrjú hefðu aðgerðum sínum haft samráð meðal annars um útboðsverð til Reykjavíkurborgar og auk þess stýrt sameiginlega viðskiptunum til Skeljungs og síðan skipt á milli sín framlegð af þeim. Hafi þessi hegðun þeirra falið í sér ólögmætt samráð og brotið gegn samkeppnislögum.

Olíufélögin viðurkenndu í málatilbúnaði sínum að þau hefðu með samráði við þetta útboð brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga en töldu ósannað að Reykjavíkurborg hefði orðið fyrir tjóni vegna þessa.

Hæstiréttur segir sýnt, að olíufélögin hafi samið af nákvæmni um hvað Reykjavíkurborg yrði boðið af hendi hvers þeirra og að sá, sem lægst bauð myndi greiða hinum tiltekna fjárhæð fyrir hvern lítra af eldsneyti, sem borgin keypti. Olíufélögin hafi ekkert fært fram í málinu, sem staðið gæti í vegi þeirri ályktun, að tilgangur þessa alls hafi verið að halda viðskiptum Reykjavíkurborg hjá Skeljungi gegn verði sem ekki hefði staðist boð Kers og Olís, ef reglur samkeppnislaga hefðu verið virtar.

Þá hefðu olíufélögin heldur ekkert fært fram til stuðnings því að slíkur ágóði hefði ekki hlotist af þessu í reynd. Sá ágóði hefði ekki verið ekki sóttur úr hendi annarra en Reykjavíkurborgar. Yrði því að leggja til grundvallar að leiddar hefðu verið nægar líkur að því að Reykjavíkurborg hafi orðið fyrir tjóni, sem olíufélögin þrjú hafi bakað henni og að þau séu skaðabótaskyld.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka