Stýrihópur á vegum borgarstjórnar, sem fjallað hefur um málefni Reykjavik Energy Invest (REI) og Orkuveitu Reykjavíkur (OR), segist telja eðlilegt að REI verði áfram rekið með það hlutverk að sinna þróunar- og fjárfestingarverkefnum á erlendri grund og það verði 100% í eigu OR.
Þá segir í tillögum hópsins, að starfsemi Orkuveitunnar, líkt og stjórnsýslan, verði að starfa fyrir kjörna fulltrúa, embættismenn að lúta pólitískum vilja og lýðræðislegum ákvörðunum. Áhöld séu um, hvort Orkuveitan hafi þróast of langt frá eigendum og á eigin forsendum.
Þá leggur stýrihópurinn til, að stjórn Orkuveitunnar skoði sérstaklega umboð stjórnarmanna, hvert sé valdsvið stjórnenda, embættismanna og umboð og jafnframt hvert hlutverk kjörinna fulltrúa sé og með hvaða hætti sé hægt að sinna því og halda því til haga gagnvart kjósendum. Aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum verði jafnframt bættur, bæði fulltrúa minnihluta og meirihluta.
Stjórnsýsluúttekt stendur nú yfir á málinu á vegum innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar og einnig hefur umboðsmaður Alþingis boðað úttekt.
Í skýrslu stýrihópsins segir m.a. að komið hafi í ljós að FL Group, sem hafði verulega fjárhagslega hagsmuni af því hvernig þjónustusamningur OR og REI yrði, hafi haft bein áhrif á samningsgerðina. Þetta komi fram í tölvupóstsamskiptum milli FL Group og OR. Þetta verði að teljast óeðlilegt í ljósi þess að samningurinn var á milli tveggja fyrirtækja í meirihlutaeigu borgarinnar og formleg staða FL Group gagnvart þeim fyrirtækjum var enginn. Telur hópurinn því, að hagsmunum OR hafi ekki verið gætt nægilega vel við samningsgerðina.