Svandís Svavarsdóttir, formaður stýrihóps um málefni Orkuveitu Reykjavíkur, skilar lokaskýrslu hópsins á fundi borgarráðs klukkan 9 í dag og verða niðurstöðurnar í framhaldi af því kynntar fjölmiðlum. Ljóst er að niðurstaða stýrihópsins er sú að skýrari reglur þurfi um starfsemi Orkuveitunnar og heimildir stjórnenda þar til að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Einnig verður litið á REI-málið sem lærdóm fyrir stjórnkerfi borgarinnar og komið er inn á hlut forstjóra Orkuveitunnar og forstjóra REI í málinu.
Mikil áhersla var lögð á að ná sátt á milli borgarfulltrúa í stýrihópnum og annarra á listum flokkanna. Fyrir vikið standa allir flokkar að niðurstöðunni, og er það áfangi út af fyrir sig, þótt það þýði að um málamiðlun sé að ræða. Mikil vinna fór í það í gær og fyrradag hjá sjálfstæðismönnum að tryggja að allir borgarfulltrúar innan raða borgarstjórnarflokksins væru sáttir við niðurstöðuna, enda höfðu þeir ólíka aðkomu að málinu.