Móðir Ásgeirs Hrafns Ólafssonar sem rændi útibú Glitnis á mánudaginn var hefur í mörg ár reynt að finna úrræði fyrir son sinn en án árangurs. Henni finnst skilningsleysi kerfisins gagnvart vandamálum sonar síns vera æpandi.
Ásgeir Hrafn flutti frá Danmörku ásamt fjölskyldu sinni árið 2001, þá fjórtán ára. Fljótt fór að halla undan fæti hjá honum eftir flutninginn hingað til lands. „Hann lenti í slæmum félagsskap og var farinn að neyta fíkniefna strax þennan vetur. Ég hafði samband við barnaverndarnefnd strax þegar ég komst að því hvernig ástandið var. Þar var mér hins vegar sagt að það væri ekki hægt að gera neitt strax. Ég reyndi þá að koma Ásgeiri að hjá Götusmiðjunni en það var ekki hægt að taka við honum þar. Á endanum fór hann í Byrgið og dvaldi þar í einhverja þrjá mánuði.“
Vistin í Byrginu virtist gera Ásgeiri Hrafni gott en því miður fór allt í sama farið stuttu eftir að hann kom þaðan. Hann byrjaði aftur í neyslu og dvaldi aftur í Byrginu um nokkurra mánaða skeið. „Sumarið eftir tíunda bekk fór hann í fyrstu meðferðina á Vogi og kláraði hana. Hann fór síðan í eftirmeðferð á Staðarfelli og stóð sig vel. Eftir að hann kláraði hana og kom heim leið hins vegar ekki nema vika þangað til hann datt í það og þá braust hann inn í fyrsta skipti. Síðan hefur leiðin legið niður á við.“
Síðan þá hefur móðir Ásgeirs Hrafns ítrekað reynt að finna úrræði handa honum. Meðal annars reyndi hún að koma honum inn á geðdeild Landspítalans eftir að hann hafði hótað að fremja sjálfsmorð. „Ég fékk þau til að leggja hann inn en svo var hringt morguninn eftir og sagt að hann væri hótandi öllum og öllu og ég yrði að ná í hann. Hann var bara veikur og ég skil ekki af hverju hann var ekki vistaður á geðdeildinni áfram. Mér finnst eins og ég gangi sífellt á veggi í þessari baráttu. Ég er dauðhrædd um að hann verði aldrei heill.“
Móðir Ásgeirs Hrafns segist oft hugsa til þess hvort málin hefðu farið öðruvísi ef brugðist hefði verið við vanda sonar síns strax þegar hann var að byrja í neyslu á unglingsárum. „Tíminn skiptir svo miklu máli í þessu. Það verða að vera til úrræði fyrir börn sem lenda í þessum vandræðum.“