Ef rekstrarformi heilsugæslustöðva höfuðborgarsvæðisins yrði breytt mætti spara allt að 390 milljónir króna í árlegum rekstri þeirra og auka afköst verulega um leið. Þetta kemur fram í drögum að skýrslu sem unnin var í heilbrigðisráðuneytinu í október 2007. Hin endanlega gerð skýrslunnar hefur ekki verið birt, en rannsóknin sem drögin lýsa bar rekstrarkostnað og afköst í Heilsugæslu Salahverfis í Kópavogi saman við hliðstæða þætti hjá öðrum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu árið 2006.
Einkahlutafélagið Salus ehf. rekur Heilsugæsluna í Salahverfi. Félagið er í eigu Nýsis ehf. og læknanna Böðvars Arnars Sigurjónssonar og Hauks Valdimarssonar. Reksturinn hófst árið 2004 og byggistá útboðssamningi við heilbrigðisráðuneytið frá því í maí árið 2003. Verð til notenda þjónustunnar er hið sama þar og annars staðar en stöðin fær greitt frá ríkinu eftir því hversu margir eru skráðir viðskiptavinir hennar og fyrir hverja komu sjúklings. Þak er þó sett á komufjöldann sem ríkið greiðir fyrir.
Hefði ríkið greitt öllum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu með þessum hætti árið 2006 hefðu sparast allt að 13,32% rekstrarfjár, eða 390 milljónir. Einnig segir í skýrsludrögunum að í ársverki læknis á stöðinni í Salahverfi séu allt að 60% meiri afköst en í meðalársverki á öðrum stöðvum, með tilliti til þess hversu mörgum skjólstæðingum hann tók á móti.