Sumarbústaður á Borgarfirði eystri tókst á loft í miklu hvassviðri um miðjan daginn og fauk fram í fjöru þar sem hann er orðinn að spýtnabraki einu saman. Bústaðurinn stóð inni í þorpinu og frammi á bakka nærri sjó. Ekkert er eftir í grunni hússins nema eitt salerni.
Á Borgarfirði fuku líka þakplötur af gömlum fjárhúsum.
Þá varð Gróðrarstöðin Barri á Valgerðarstöðum í Fellum fyrir talsverðu tjóni þegar plötur fuku af nýjum gróðurhúsum stöðvarinnar. Nokkrar skemmdir eru á húsum og búnaði.
Mjög hvass vindur var í Fellum í morgun og reyndu björgunarsveitarmenn að fergja og festa það sem sýnt þótti að myndi fara af stað í mestu vindhviðunum, en þær náðu allt að 43 m/sek undir hádegið.