Þrjú snjóflóð hafa fallið í Súðavíkurhlíð sl. klukkustund, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Einn bíll lenti í fyrsta flóðinu og kona sem var í honum var flutt með sjúkrabíl til Ísafjarðar. Skömmu síðar féll annað flóð í hlíðinni.
Björgunarsveit, lögregla og Vegagerðin fóru á staðinn og könnuðu aðstæður. Þegar ljóst var að ekki hefðu fleiri lent í þessum tveimur flóðum var ákveðið að rýma hlíðina sem fyrst enda aðstæður hættulegar og veður slæmt.
Skömmu síðar féll svo þriðja flóðið rétt norðan við Hamarsgatið og lokaði af lögreglubifreið er var á leið til Ísafjarðar. Björgunarsveit er nú á leið á snjóbíl þeim til aðstoðar. Búið er að loka fyrir alla umferð um Súðavíkurhlíð og verið er að loka fyrir umferð um Óshlíð.