Um 180 sjálfboðaliðar björgunarsveita, ásamt slökkviliði og lögreglu, hafa nú sinnt um 150 útköllum vegna óveðurs sem gengur yfir landið, segir í tilkynningu frá Landsbjörg klukkan 20 í kvöld. Flest hafa útköllin verið á höfuðborgarsvæðinu, eða tæplega 100 talsins.
Á Suðurnesjum hafa hátt á þriðja tug aðstoðarbeiðna borist, og á Akranesi hafa verið 10 útköll vegna veðurs. Einnig hafa björgunarsveitir verið að störfum í Vestmannaeyjum, Hnífsdal, Hellu og Snæfellsbæ.
Búist er við að veðrið nái hámarki á milli klukkan 9 og 12 í kvöld á höfuðborgarsvæðinu, skilin ganga svo tiltölulega hratt yfir landið.