Veður fer nú versnandi víða um land og auk þess eru vegir sumstaðar ófærir m.a. vegna snjóflóða. Fólk er eindregið beðið að leggja ekki í ferðalög án þess að kynna sér færð og veður. Búið er að opna Hellisheiði, sem hefur verið lokuð frá því í gær.
Að sögn Vegagerðarinnar er sandstormur á Eyrarbakkavegi og flughálka á kafla undir Eyjafjöllum og einnig í Þykkvabæ. Hálka og hálkublettir eru annars víða á Suðurlandi en sumstaðar þæfingsfærð á sveitavegum.
Óveður er við Hafnarfjall og alls ekki ferðaveður. Eins er óveður á Fróðárheiði og norðanverðu Snæfellsnesi. Raunar er orðið mjög hvasst víðar við Faxaflóa svo sem á Reykjanesbraut, Kjalarnesi og Sandskeiði.
Á Vestfjörðum er óveður á Gemlufallsheiði en vegna snjóflóða og snjóflóðahættu er vegur lokaður í Súgandafirði, á Eyrarhlíð, Óshlíð og Súðavíkurhlíð. Snjóþekja og skafrenningur er á Kleifaheiði og á Hálfdán og eins á Steingrímsfjarðarheiði en óveður á Ennishálsi á Ströndum.
Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja á öllum leiðum ásamt skafrenning á stöku stað. Óveður og hálka er á Öxnadalsheiði. Vegurinn um Þverárfjall er nú orðinn opinn öllum bílum en þar er hálka.
Það er óveður á Mývatnsöræfum og á Hólasandi en annars er víðast hvar hálka eða hálkublettir á Norðaustur- og Austurlandi. Öxi er ófær.