Búið að opna Hellisheiði en veður fer versnandi

Veður fer nú versnandi víða um land og auk þess eru vegir sumstaðar ófærir m.a. vegna snjóflóða. Fólk er eindregið beðið að leggja ekki í ferðalög án þess að kynna sér færð og veður. Búið er að opna Hellisheiði, sem hefur verið lokuð frá því í gær.

Að sögn Vegagerðarinnar er sandstormur á Eyrarbakkavegi og flughálka á kafla undir Eyjafjöllum og einnig í Þykkvabæ. Hálka og hálkublettir eru annars víða á Suðurlandi en sumstaðar þæfingsfærð á sveitavegum.

Óveður er við Hafnarfjall og alls ekki ferðaveður. Eins er óveður á Fróðárheiði og norðanverðu Snæfellsnesi. Raunar er orðið mjög hvasst víðar við Faxaflóa svo sem á Reykjanesbraut, Kjalarnesi og Sandskeiði.

Á Vestfjörðum er óveður á Gemlufallsheiði en vegna snjóflóða og snjóflóðahættu er vegur lokaður í Súgandafirði, á Eyrarhlíð, Óshlíð og Súðavíkurhlíð. Snjóþekja og skafrenningur er á Kleifaheiði og á Hálfdán og eins á Steingrímsfjarðarheiði en óveður á Ennishálsi á Ströndum.

Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja á öllum leiðum ásamt skafrenning á stöku stað. Óveður og hálka er á Öxnadalsheiði. Vegurinn um Þverárfjall er nú orðinn opinn öllum bílum en þar er hálka.

Það er óveður á Mývatnsöræfum og á Hólasandi en annars er víðast hvar hálka eða hálkublettir á Norðaustur- og Austurlandi. Öxi er ófær.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert