Fallist á húsleit

Hús Hæstaréttar.
Hús Hæstaréttar.

Hæstaréttur hefur fallist á þá kröfu embættis ríkislögreglustjóra, að fram fari húsleit hjá embætti skattrannsóknastjóra í því skyni að leggja hald á tiltekin gögn vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum Óskars Magnússonar, fyrrum stjórnarformanns Baugs. Skattrannsóknarstjóri segir að gögnin verði nú afhent.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í janúar á kröfur ríkislögreglustjóra um húsleit hjá skattrannsóknarstjóra. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar, sem nú hefur kveðið upp dóm sinn.

Fimm dómarar fjölluðu um málið og mynduðu þrír meirihluta en tveir dómarar skiluðu séráliti og vildi staðfesta niðurstöðu skattrannsóknarstjóra.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, segist telja, að skattrannsóknarstjóri afhendi nú þau gögn sem deilan hefur snúist um. Embætti ríkislögreglustjóra hefði í raun getað framkvæmd húsleitina eftir að úrskurður hérðaðsdóms lá fyrir en fallist á að bíða niðurstöðu Hæstaréttar.

Helgi Magnús sagði, að dómur Hæstaréttar væri staðfesting á þeim skyldum sem ákæruvaldið hefði til að rannsaka mál.

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, segir að umrædd gögn verði nú afhent í kjölfar dómsins. Hún segir að sú niðurstaða Hæstaréttar, að þrír dómarar hafi myndað meirihluta en tveir dómarar viljað staðfesta niðurstöðu embættisins, staðfesti, að réttarágreiningur hafi verið um málið.

Bryndís sagði við mbl.is, að menn yrðu nú að velta því fyrir sér hvað þessi dómur þýddi og hvort hann leiði til þess, að mun fleiri mál, sem eru til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra, verði send til lögreglu. 

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert