Í reynslusölu í Reykjavík: Sunnlenski bjórinn ekki til á Suðurlandi

Sunnlenskir bjórunnendur fá ekki tækifæri til að kaupa sunnlenskan bjór, sem kemur á markað innan skamms, í sinni heimabyggð fyrr en bjórneytendur í Reykjavík hafa sýnt það í verki að bjórinn standist kröfur þeirra.

Sunnlensku bjórtegundirnar sem um ræðir eru tvær. Annars vegar er Skjálfti sem brugghúsið Ölvisholt í Flóahreppi mun setja á markað í lok mánaðarins og hins vegar er um að ræða Volcano-bjór frá Vestmannaeyjum. Stefnt er að því að sá bjór komi í búðir í sumar.

Furðulegar reglur

„Þetta er nú bara ein af þeim furðulegu reglum hjá ÁTVR sem gilda varðandi verslun með áfengi,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Sigurður Kári lagði fram frumvarp til breytinga á áfengislögum sl. haust. „Þetta væri nú ekki vandamál ef búið væri að samþykkja frumvarp mitt um að heimila sölu á þessum vörum í búðum.“

Hann segist hafa fullan skilning á því að Sunnlendingar skuli vera svekktir yfir því að þurfa að bíða eftir því að Reykvíkingar samþykki bjór sem framleiddur er í þeirra sveit.

Markaðshömlur í kerfinu

„Þetta mál er lifandi dæmi um að einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis gerir það að verkum að það eru markaðshömlur í kerfinu sem gera nýjum framleiðendum erfitt fyrir að komast inn á markaðinn,“ segir Sigurður Kári.

Framleiðendurnir segjast fullvissir um að bjórtegundirnar komi á endanum í verslanir annars staðar á landinu. „Við höfum ekki áhyggjur, enda er þetta úrvalssælkerabjór sem við höfum lagt í allan okkar metnað,“ segir Bjarni Einarsson, framkvæmdastjóri Ölvisholts. „Við byrjum í þessum tveimur búðum en gerum ráð fyrir að færa okkur svo út í aðrar verslanir.“

Í hnotskurn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert