Rukkaður fyrir afnot af salerni

Hreðavatnsskáli rukkaði rútu fulla af háskólanemum fyrir afnot af klósetti þó svo að það sé ekki í stefnu fyrirtækisins. Mismunun, segir lögfræðinemi sem var í spreng.

„Ég var nú ekki með neitt klink á mér og ákvað því bara að létta á mér úti við,“ sagði Árni Sigurgeirsson, lögfræðinemi á Akureyri, en hann var hluti af stórum hópi háskólanema sem voru á leið í rútu til Reykjavíkur um helgina þegar náttúran kallaði.

„Ég man nú ekki eftir að hafa verið rukkaður þarna þegar ég var á eigin vegum, en í þessu tilviki kostaði 50 krónur að pissa,“ sagði Árni, óviss um hvað kostaði að „gera númer tvö“. „Það reyndi bara ekki á það hjá neinum held ég. Það fóru flestir út í móa til að gera þarfir sínar, bæði strákar og stelpur, þrátt fyrir að ekki væri besta veðrið til slíkra athafna.“

Það tíðkast víða erlendis að rukka fyrir notkun á salernisaðstöðu og hefur sú hefð einnig hreiðrað um sig hér á landi, þó svo að almenningur eigi enn eftir að venjast þeirri staðreynd.

Rukkað er fyrir salernisaðstöðu í miðbænum og víðar, en að sögn Þorvalds Egilssonar, annars eiganda Hreðavatnsskála, eru stakir vegfarendur ekki rukkaðir á staðnum. „Ég kannast nú ekki við þetta tilfelli, en það er ekki stefna okkar að rukka almennt fyrir salernisaðstöðuna,“ segir Þorvaldur.

Og bætir við: „En þegar heilu rúturnar hafa beðið okkur um að sinna farþegum sínum rukkum við fyrir það. Það myndi enginn græða á því að fá bara fólk á klósettið til sín, því það fylgir þessu heilmikill rekstrarkostnaður fyrir okkur auðvitað,“ sagði Þorvaldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert