Norskur togari, Fiskeskjer að nafni, sigldi upp á hafnarkantinn í Neskaupstað nú eftir hádegið. Togarinn mun hafa leitað vars í Neskaupstað og var verið að færa hann til í höfninni svo annað skip gæti tekið olíu.
Að sögn Kristínar Ágústsdóttur, fréttaritara Morgunblaðsins, er talið að gírbúnaður togarans hafi bilað og var ekki hægt að stöðva hann í tæka tíð.
Ekki er vitað um skemmdir á skipinu og höfninni. Þá er ekki vitað til að neinn hafi sakað. Mikið af skipum er í höfninni í Neskaupstað þessa stundina.