Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur þegar REI-málið kom upp, sagði eftir borgarráðsfund í gær að ekkert nýtt kæmi fram í lokaskýrslu stýrihópsins varðandi aðild sína að málinu.
„Miklu fremur segir í skýrslunni að ég hafi haft stöðuumboð til að gera það sem ég gerði á eigendafundinum,“ sagði Vilhjálmur og vísaði þar til álits borgarlögmanns sem sent var umboðsmanni Alþingis. Hann benti á að þetta hefði verið hefðbundið verklag hjá borginni um árabil líkt og komi fram í lögfræðiálitum Láru V. Júlíusdóttur og borgarlögmanns.
Vilhjálmur segir að sjálfstæðismenn hafi þegar þurft að axla ábyrgð í málinu með því að sá meirihluti sem þeir hafi verið í hafi gliðnaði meðal annars út af þessu máli.
Spurður um það hvort fram hafi komið tillaga um það á fundi borgarfulltrúa sjálfstæðismanna að hann myndi víkja svarar hann:
„Nei, ekki til í dæminu. Það er mikið traust á milli okkar og þið verðið að reyna trúa því. Við erum búin að fara yfir málin og skoða það hvað gerðist, og við erum búin að ná sáttum.“
Þá segir hann málið hafa veikt stöðu sína. „Auðvitað hefur þetta veikt stöðu mína," segir hann. „ Þetta er búinn að vera erfiður tími hjá mér. Því er ekki að leyna. En ég á góða fjölskyldu og hef sterk bein.“