Vangaveltur um netmarkað

Yfir 300 manns sitja ráðstefnu um netviðskipti á Hilton Reykjavík …
Yfir 300 manns sitja ráðstefnu um netviðskipti á Hilton Reykjavík Nordica. mynd/Jón Svavarsson

Þéttriðið tengslanet, upplýsingar og notenda- og markaðsgreining var fyrirlesurunum ofarlega í huga á alþjóðlegri netmarkaðsráðstefnu, sem haldin er í Reykjavík í dag í samvinnu Árvakurs og Nordic eMarketing.  Er tilefni ráðstefnunnar meðal annars 10 ára afmæli mbl.is.

Fyrirlesarar eru frá ýmsum löndum og hafa ólíka sýn á viðfangsefnið. „Gamla slagorðið valdið til fólksins er loksins orðið að raunveruleika," sagði Hollendingurinn Ton Wesseling t.d. 

Wesseling,  sem lýsir sér sem netfíkli, bloggara og ráðgjafa, sagði að netið væri að þróast í átt að risastóru tengslaneti einstaklinga, sem skiptust á upplýsingum og hugmyndum. Þeir sem vildu selja vöru og þjónustu á netinu yrðu að hafa þetta ofarlega í huga og nýta sér þá mörgu samskiptavefi, sem nú er að finna.

Steffen Gausemel Bache, frá Aftonbladet í Svíþjóð, sagði hins vegar að efnisrík netsvæði gefi bestu möguleikana og þangað líti auglýsendur helst eins og þeir hafi löngum gert til efnismikilla og útbreiddra fjölmiðla. Auglýsingatekjur á netinu færu ört vaxandi og greinilegt að þróunin væri í þá átt frá prentmiðlum og sjónvarpi.

Bache sagði m.a. að áhugavert yrði að sjá hvort netið haldi sínu, ef efnahagslíf heimsins væri að sigla inn í samdráttarskeið, eða hvort það sama gerist og árin 2000 og 2001 að auglýsendur snúi á ný til hefðbundinna fjölmiðla. 

Ingvar Hjálmarsson,  netstjóri mbl, segir að markmiðið með ráðstefnunni sé að  kynna fyrir auglýsinga- og markaðsfólki hvaða tækifæri netið býður upp á. Einnig skipti miklu að þeir sem ætla að ná árangri á netinu meti í upphafi þá grunnþætti sem eiga að ráða för. Þessa þætti megi síðan draga saman í þartilgerðum forritum og nota til að sjá hvort tilteknar markaðaðgerðir hafi heppnast.

Ingvar segir að netið og fjölmiðlun taki stöðugum breytingum. Nú sé til dæmis ljóst, að sjónvarp á netinu sé að verða fyrirferðarmeira en áður. Þá sé netið komið í vasann á fólki því í nýjustu farsímunum geti menn vafrað á netinu og bæði lesið þar texta og skoðað myndskeið. 

Rúmlega 300 manns sitja ráðstefnuna og segir Ingvar ljóst, að mikill áhugi sé á þessu viðfangsefni. Til standi, að ráðstefnur af þessu tagi verði haldnar árlega héðan í frá.

Vefsíða ráðstefnunnar

Ingvar Hjálmarsson, netstjóri mbl, er ráðstefnustjóri.
Ingvar Hjálmarsson, netstjóri mbl, er ráðstefnustjóri. mynd/Jón Svavarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert