Virkja á Samhæfingarmiðstöðina

Frá samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð
Frá samhæfingarmiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð Árvakur/Júlíus

Ákveðið hefur verið að virkja Samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð frá klukkan 16 og fram eftir nóttu, en varað er við vonskuveðri síðdegis í dag og fram á nótt.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar verða í viðbragðsstöðu, sem og slökkvilið og lögregla. Allar óskir um aðstoð skulu berast til Neyðarlínu 112.

Gert er ráð fyrir talsverðu vatnsveðri og snörpum vindhviðum, fyrst SA-átt sem snýst í SV átt en þessar áttir valda oft vandræðum á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega í efri byggðum. Einnig má búast við miklum vindhviðum á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og í Vallarhverfinu í Hafnarfirði.

Húseigendum um land allt er bent á að hreinsa vel frá niðurföllum og huga að lausum munum. Verktakar eru sérstaklega áminntir að ganga vel frá sínum vinnusvæðum.

Þá verður stórstreymt og eigendur báta eru beðnir að huga að þeim. Þeir sem þurfa að vera á ferðinni eru hvattir til að fylgjast með þróun veðursins og færð á vegum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert