Vísindasmiðja í Ráðhúsinu

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Árvakur/Sverrir

Vísindasmiðja verður sett upp í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 13 í dag þar sem leikskólabörn munu vinna með ljós og fjölbreytilegan efnivið, en þetta er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík.

Þau ætla að skoða hvernig nota megi ljós til að gefa húsum nýtt líf og hvernig sum efni hleypa ljósi í gegnum sig og önnur ekki, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.

Að smiðjunni standa Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í samstarfi við leikskólabraut Háskólans á Akureyri. Í Miðborginni fara leikskólar líka í ljósaskrúðgöngu í dag og hittast á Kjarvalsstöðum þar sem þau ætla að hylla íslenskt vetrarveður með atriðum um rokið, rigningu, sólina og snjóinn.

Í Grafarholti hittast öll börn í einum leikskóla og ætla þau að ganga á milli skóla með vasaljós og búa til ljósa- og skuggagjörninga. Í leikskólanum Rauðhól verður rafmagnslaus dagur og börnin í Blásölum ætla að skoða ljós og skugga efst í Elliðaárdalnum.

Í Breiðholti verða leikskólarnir líka í samstarfi. Þar verða ljósagjörningar m.a. tengdir fyrri tímum og huldufólki. Litir regnbogans á hreyfingu er yfirskrift í samstarfi leikskólanna í Bakkahverfi. Börnin í þeim ætla að hittast á Bakkatúni með vasaljós og m.a. lýsa upp litaðan pappír, syngja og leika sér.   

Í Vesturbæ munu leikskólar líka iða af leiksgleði og sköpunargáfan fær að njóta sín í ýmiss konar hreyfi- og ljósalist. Í Sæborg verður m.a. sett upp ljósaver og börnin á Mýri ætla að nota myndvarpa og vasaljós á skuggaballi.

Í Grafarvogi munu þeir Gunni og Felix halda uppi fjörinu í íþróttahúsinu í allan dag. Þar verða m.a. búnir til ljósaormar þegar börn og starfsmenn leikskólanna fá glóandi hálsmen til að dansa með.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert