Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur sent frá sér yfirlýsingu „vegna Kastljóss í gærkvöldi,“ þar sem hann segir m.a. að spyrjandi Kastljóss hafi haldið því fram að „ég hafi ... orðið tvísaga,“ en að nánar athuguðu máli hafi komið í ljós að svo hafi í raun ekki verið.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
„Vegna umfjöllunar Kastljós um að ég hafi þann 4. október. annars vegar og 8. október, hins vegar orðið tvísaga um málefni kaupréttasamninga vil ég taka eftirfarandi fram. Ég mótmælti þessu harðlega og sagði að snúið hefði verið út úr orðum mínum. Spyrjandi Kastljós hélt öðru fram.
Eftir að hafa skoðað málið nánar, kemur í ljós að ég hafði rétt fyrir mér og hafði ekki orðið tvísaga, eins og stjórnendur Kastljóss hafa viðurkennt. Sömu stjórnendur hafa lofað að birta leiðréttingu vegna þessa í kvöld.
Í sama viðtali talaði ég um ráðgjöf borgarlögmanns. Þar átti ég við fyrrverandi borgarlögmann, sem taldi að ég hefði umboð til að taka þessa ákvörðun sem fulltrúi eigenda. Í áliti núverandi borgarlögmanns á bls. 5 kemur fram að borgarstjóri hafi stöðuumboð til að taka ákvarðanir fyrir hönd eigandans, Reykjavíkurborgar, á aðalfundum og eigendafundum OR.
Auk þess komu engar athugasemdir fram um umboð mitt á stjórnar- og eigendafundi OR.“