Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, fékk ekki álit Kristbjargar Stephensen borgarlögmanns á því hvort hann hefði umboð til þess að samþykkja samruna REI og Geysis Green Energy áður en hann fór á eigendafund Orkuveitu Reykjavíkur 3. október. Í Kastljósi Sjónvarpsins í fyrrakvöld margítrekaði Vilhjálmur að borgarlögmaður hefði staðfest umboð sitt.
Í yfirlýsingu sem Vilhjálmur sendi frá sér í gær segir: „Í sama viðtali talaði ég um ráðgjöf borgarlögmanns. Þar átti ég við fyrrverandi borgarlögmann, sem taldi að ég hefði umboð til að taka þessa ákvörðun sem fulltrúi eigenda.“
Ekki kom fram í ályktuninni um hvern af fyrrverandi borgarlögmönnum Villhjálmur átti við, en Hjörleifur Kvaran, fyrrverandi borgarlögmaður og starfandi forstjóri Orkuveitunnar, staðfestir að þeir hafi rætt málið. „Ég dró ekki í efa að Vilhjálmur hefði heimild til að taka þessar ákvarðanir á eigendafundinum,“ segir Hjörleifur Kvaran. „Ég gaf ekki skriflegt álit um það, ég geri ráð fyrir að það hafi komið fram í okkar samtölum..“
Hjörleifur var einn þeirra sem áttu að fá kaupréttarsamning í sameinuðu REI. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var, auk þess að vera borgarstjóri, stjórnarmaður í Orkuveitunni þegar ákvarðanir um REI voru teknar.
Í yfirlýsingunni frá Vilhjálmi sagði einnig: „Í áliti núverandi borgarlögmanns á bls. 5 kemur fram að borgarstjóri hafi stöðuumboð til að taka ákvarðanir fyrir hönd eigandans, Reykjavíkurborgar, á aðalfundum og eigendafundum OR.“
Þarna vísar Vilhjálmur til svars borgarlögmanns við spurningum sem Umboðsmaður Alþingis beindi til borgarinnar vegna REI-málsins. Þar segir: „Í þessu felst að borgarjóri hafi stöðuumboð til að taka ákvarðanir fyrir hönd eigandans, Reykjavíkurborgar á aðalfundum eða eigendafundum. Það stöðuumboð verður þó ekki talið vera án takmarkana. Vangaveltur hafa komið upp í kjölfar sameiningarinnar að hvort borgarstjóri hafi farið út fyrir stöðuumboð sitt, þ.e. hvort borgarráð hefði þurft að samþykkja sameininguna. Af því telefni m.a. hefur borgarráð sett á laggirnar sérstakan stýrihóp um málefni OR.“ Það er því ekki annað að skilja en að borgarlögmaður hafi talið það hlutverk stýrihópsins að dæma um umboð borgarstjóra.