„Orð mín frá því í fyrradag hafa verið mistúlkuð í fjölmiðlum. Þau verður að skoða í því ljósi að það var aldrei hlutverk stýrihópsins að draga menn til ábyrgðar. Ég hef ekki í hyggju að benda á einn eða neinn í þessum efnum,“ segir Ólafur F. Magnússon borgarstjóri og vísar þar til ummæla sem höfð voru eftir honum þess efnis að hann teldi að einhver ætti að bera ábyrgð í REI-málinu.
Ólafur segir að það eigi eftir að koma í ljós hvert næsta skref verði nú þegar skýrslan skýrsla starfshópsins hefur verið kynnt. „Meira að segja þeir sem unnu þetta hafa ekki gefið skýr svör og jafnvel vantar að þeir hafi talað við alla aðila um málið,“ segir Ólafur og bætir við: „Þetta var ekki kynnt endanlega fyrr enn í fyrradag.“
Ólafur sagðist hvorki vilja tjá sig um efasemdir um umboð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar þann 3. október né um þær rangfærslur sem komið hafa fram í máli Vilhjálms í fjölmiðlum.