„Stóru tíðindin í REI-skýrslunni eru þau að fulltrúar allra flokka skrifuðu undir áfellisdóm yfir þeim vinnubrögðunum sem viðhöfð voru í haust. Fulltrúar allra flokka skrifuðu líka undir að framganga Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar fyrrv. borgarstjóra væru óverjandi,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi í tilkynningu nú fyrir hádegið.
Tilkynning Dags er svohljóðandi:
„Stóru tíðindin í REI-skýrslunni eru þau að fulltrúar allra flokka skrifuðu undir áfellisdóm yfir þeim vinnubrögðunum sem viðhöfð voru í haust. Fulltrúar allra flokka skrifuðu líka undir að framganga Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar fyrrv. borgarstjóra væru óverjandi. Þessum meginstaðreyndum var reyndar valið penna orðalag. Umræður um orðalag skýrslunnar mega hins vegar ekki yfirskyggja þennan meginkjarna málsins. Þessi niðurstaða er Svandísi Svavarsdóttur formanni hópsins til hróss.“
„Fyrstu viðbrögð Vilhjálms og borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins vekja hins vegar áleitnar spurningar. Þar ætlar enginn að axla ábyrgð. Í mínum huga segir það minnst um skýrsluna en miklu meira um plagsið í íslenskri pólitík. Ef sambærileg skýrsla hefði birst í einhverju nágrannalanda okkar hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Jafnvel þegar ekki þarf lengur að deila um staðreyndir hvarflar ekki að Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni eða borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins að það eigi að hafa nokkrar pólitískar afleiðingar. Ég skil vel að borgarbúar standi eftir furðu lostnir.“
„Það er engin leið að henda reiður á eftiráskýringum og eftirá-eftirá-leiðréttingum sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sendir sér á hröðum flótta í veikri málsvörn. Það sem ruglar mig þó ekki minna í ríminu er að tveir þeirra sem skrifa undir skýrsluna eru nýbúnir að klappa þennan sama Vilhjálm Þ. upp sem næsta borgarstjóra í Reykjavík. Hvernig í veröldinni getur það staðist eftir það sem á undan er gengið og hefur nú verið fest á blað? Ég get einfaldlega ekki komið þessu heim og saman. Og af hverju tekur enginn borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins símann frá fréttamönnum. Ég held að það sé vegna þess að þeir geta ekki svarað þessari spurningu: Er verjandi að hefja höfuðpaurinn í REI-málinu til æðstu virðingarstöðu í borgarpólitíkinni? Er það lærdómurinn sem Vilhjálmur, Ólafur F. Magnússon og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins telja rétt að draga af málinu?“
„Fyrir utan leyndina, pukrið og offorsið sem dregið er fram í skýrslunni er ljóst að borgarstjóri fór fram án umboðs, misfór með vald og umgekkst eigur almennings af ábyrgðarleysi. Umboðsleysið snýst ekki aðeins um hið lagalega, sem mest hefur verið til umræðu, heldur ekki síður pólitískt umboð. Vilhjálmur hafði engan í eigin flokki með sér í þessu máli. Þar varð alger trúnaðarbrestur. Erfitt er að sjá hvernig í þá bresti verður barið. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni og Vilhjálmur sjálfur verða hins vegar að eiga það við sína samvisku og borgarbúa hvernig þeir axla sín skinn.“