Safn í Lundúnum vill varðveita Sirkus

Skemmtistaðurinn Sirkus.
Skemmtistaðurinn Sirkus. Árvakur/G. Rúnar

„Þetta er hugmynd sem kom frá vissu fólki og er ekki komin lengra. Ég veit ekki hvað við gerum. Við erum að hugsa málið,“ segir Sigríður Guðlaugsdóttir, Sigga, eigandi skemmtistaðarins Sirkuss við Klapparstíg, sem stendur til að rífa á næstunni.

Samkvæmt heimildum 24 stunda hefur safn í Lundúnum áhuga á að varðveita Sirkus um ókomna framtíð. Óljóst er um hvaða safn er að ræða, en Sigga staðfestir að hugmyndin sé á borðinu. „Þetta er frábær hugmynd,“ segir hún. „Húsið yrði frekar sent til útlanda en á Árbæjarsafn. Bretarnir virðast sjá eitthvað í þessu. Við viljum ekki vernda neitt sem heitir samtímamenning hér á Íslandi sýnist mér.“

Ekki tekinn í heilu lagi

Sigga segist ekki vera með á hreinu hvernig Bretarnir hyggist varðveita Sirkus, verði staðurinn sendur yfir hafið. „Allt húsið verður ekki tekið. Það er ekki hægt,“ segir hún. „En það er eitthvað sem þeir vilja.“

Stefnt er að því að opna Sirkus annars staðar í höfuðborginni þegar rétt hús finnst og Sigga segir að ekki komi hvaða hús sem er til greina. „Við erum enn að leita okkur að húsnæði,“ segir hún. „Við tökum okkur pásu þar til við finnum húsnæði með almennilegum anda í.“

Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, segir verndun skemmtistaðarins Sirkuss á Árbæjarsafni ekki hafa komið til umfjöllunar. „Árbæjarsafn er húsasafn þar sem hús sem hafa eitthvert byggingarsögulegt og menningarlegt gildi eru varðveitt,“ segir Svanhildur. „Þar eru varðveittir byggingarstílar sem eru kannski að hverfa að öðru leyti. Ég held að enginn haldi því fram að Sirkus-húsið hafi byggingarsögulegt gildi. Menn eru að tala um starfsemina sem átti sér þar stað.“

Aðspurð hvort það sé ekki svolítið skrítið að Bretar vilji varðveita íslenska samtímamenningu frekar en Íslendingar segir Svandís hugmyndina skemmtilega. „Það er örugglega þess virði að skoða hugmyndina nánar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert