Kirkjuyfirvöld útiloka ekki sölu á Laufási við Eyjafjörð

Kirkjan að Laufási við Eyjafjörð.
Kirkjan að Laufási við Eyjafjörð. mbl.is/þorkell

Guðmundur Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, segir að það hafi vissulega komið til umræðu innan kirkjunnar að selja prestssetrið Laufás í Eyjafirði og flytja prestssetrið annað. Þórarinn Pétursson, bóndi í Laufási, hefur hafnað tilboði sem stjórn prestssetra gerði honum um leigu til fjögurra ára, en Guðmundur segir að í tilboðinu hafi kirkjan komið vel til móts við Þórarinn.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu snúast deilurnar um Laufás um hvort Þórarinn Ingi Pétursson fái að nýta jörðina áfram undir sauðfjárbúskap og hvort íbúðarhús hans sem þar stendur fái að vera þar áfram.

Þórarinn er sonur séra Péturs Þórarinssonar sem lést á síðasta ári. Fjölskylda Péturs rak búskap á jörðinni af myndarskap og í tíð Péturs var búið stækkað. Þar er nú rekið um 600 kinda bú, auk hrossabúskapar. Búskapurinn var að stærstum hluta á verksviði Þórarins, enda átti séra Pétur við langvinn og erfið veikindi að stríða.

Fyrirhugað er að auglýsa prestssetrið laust til umsóknar, en það verður ekki gert fyrr en niðurstaða er komin varðandi ábúð Þórarins á jörðinni. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa margir sýnt áhuga á að sækja um embættið, en jafnframt heyrist að deilurnar fæli menn frá því. Sumir vilji ekki koma nálægt málinu meðan þessi staða sé uppi.

Ítarleg fréttaskýring er um málið í sunnudagsblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert