Kindurnar heimtar úr helju

Guðmundur Jörundsson með kindurnar eftir að þær voru komnar í …
Guðmundur Jörundsson með kindurnar eftir að þær voru komnar í hús á ný. mbl.is/alfons

Ærnar  sex sem hafa hafst við í Ólafsvíkurenni síðan í haust, og hafa verið í sjálfheldu síðan, komust í manna hendur í dag. Félagar í björgunarsveitinni Lífsbjörgu fóru á staðinn ásamt eiganda kindanna, Guðmundi Jörundssyni, og náðu þeim við erfiðar aðstæður.

Davíð Óli Axelsson formaður Lífsbjargar sagði í samtali við fréttaritara að aðstæður hefðu verið mjög erfiðar, rok mikið „en þetta tókst og er ég mjög ánægður með hvernig til tókst við þessar björgunaraðgerð og gott að þetta er yfirstaðið.“

Davíð Óli segir að ærnar hafi verið mjög styggar, „og þegar við vorum búnir að reka þær niður úr Ólafsvíkurenni, þá reyndu ærnar að taka á sprett aftur upp á Ennið, en sem betur fer tókst okkur að koma í veg fyrir það.“

Guðmundur Jörundsson sagði að björgunarferð lokinni að björgunarsveitarmenn væru hetjur. „Mér er mikið létt og var í raun búinn að afskrifa að fá ærnar aftur í hús, það er búið að vera leiðindaveður undanfarnar vikur og því átti ég ekki von á að fá ærnar í hendur aftur.“

Guðmundur segir að ærnar séu í mjög góðum holdum og því hafi þær haft nóg að éta á fjallinu þessa mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert