Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins mun nú fara yfir stöðu sína innan borgarstjórnarflokksins en samkvæmt heimildum Fréttavefjar Morgunblaðsins verða þau mál rædd á fundi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins á morgun.
Samkvæmt hádegisfréttum RÚV og Fréttablaðinu hefur Vilhjálmur rætt við bæði formann og varaformann Sjálfstæðisflokksins um pólitíska stöðu hans og segir heimildarmaður Fréttavefjar Morgunblaðsins líklegt að Vilhjálmur ætli að standa þessa orrahríð af sér án þess að segja stöðu sinni sem oddvita lausri.
Ekki hefur náðst í Vilhjálm eða formann flokksins í morgun en Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að Vilhjálmur væri oddviti borgarstjórnarflokksins og að hann nyti stuðnings borgarstjórnarflokksins.