Annasamt var hjá þeim lögreglumönnum sem stóðu vaktina á Raufarhöfn í nótt þar sem haldið var fjörugt þorrablót. Kalla þurfti út lækni frá Kópaskeri vegna manns sem sló í gegnum rúðu og ökklabrotnaði í slagsmálum við annan mann.
Einnig þurfti lögreglan að stöðva slagsmál í heimahúsi undir morgun en þar hlaut maður skurð á augabrún og missti tönn er hann var sleginn í andlitið með flösku. Sá sem lagði til hans með flöskunni fór síðan út og vann skemmdir á bifreið sem þar stóð.
Það voru tveir lögreglumenn frá Þórshöfn á Langanesi sem stóðu vaktina á Raufarhöfn í nótt.