Umferð sýnd í beinni?

Umferðarmyndavélum Vegagerðarinnar fer fjölgandi. Nú þegar er hægt að sjá reglulega uppfærðar ljósmyndir af helstu heiðum og fjallvegum á vefsíðu hennar, en umferðarmyndavélar á höfuðborgarsvæðinu eru einnig að bætast við.

Nú þegar hafa verið settar upp myndavélar á Arnarnesbrúnni við Hafnarfjarðarveg í Garðabæ og á Bústaðabrú yfir Kringlumýrarbraut. Þær myndavélar senda gögn um ljósleiðara og uppfærist myndin á einnar sekúndu fresti. Það eru því í raun hreyfimyndir í beinni útsendingu, þar sem sjá má umferðina streyma um göturnar, eða umferðarteppur ef svo ber við.

Að sögn Bjarna Stefánssonar, deildarstjóra viðhalds og þjónustu hjá Vegagerðinni á suðvestursvæði, er líklegt að myndir frá þessum vélum verði komnar á netið innan skamms. Hann segir megintilgang þeirra að auðvelda Vegagerð, sveitarfélögum og lögreglu eftirlit með veðurfari, snjóalögum og umferð, en einnig geti þetta gagnast ökumönnum sem vilja velja sér ökuleið áður en farið er úr húsi, í samræmi við færð og umferðarþunga.

Eitt af því sem þarf að aðgæta er hins vegar, að sögn Bjarna, að á myndunum sé ekki hægt að greina bílnúmer, og að fólk sé ekki þekkjanlegt á þeim, í samræmi við sjónarmið persónuverndar. „Það er innanhússumræða í gangi um hversu mikið eigi að birta á netinu og hvernig,“ segir Bjarni. „Mér finnst líklegt að myndir fari á netið á næstunni, en óvíst er hvort það verða kyrrmyndir eða lifandi myndir.“

Ráðgert er að fjölga myndavélunum á næstunni, mögulega um tíu á næstu tveimur til þremur árum. Til að mynda verður sett upp myndavél við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar, þar sem oft hafa orðið harðir árekstrar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert