Á milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða eru tæpir 34 km og liggur leiðin að mestu um Fagradal, hæst í 350 metrum y.s.m. Veturinn hefur verið heldur þungur á þessum slóðum og dalurinn því stundum torfarinn vegna fannfergis og illviðra. Að öllu jöfnu er Fagradal haldið opnum milli kl. 07 og 23 yfir veturinn. Á milli 350 og 500 bílar hafa farið um dalinn á sólarhring undanfarið.
Sveitarstjórnarmenn á Fljótsdalshéraði og víðar hafa ítrekað kallað eftir bættri vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á leiðinni þar sem umferð um Fagradal er mikil og fólk sækir þjónustu og vinnu af Héraði á firði og öfugt. Til dæmis vinna um 100 manns af Héraðinu í álveri Alcoa Fjarðaáls. Fyrirtækið lagði mikið upp úr því á undirbúningstíma verksmiðjunnar að samgöngur yrðu færðar til viðunandi horfs til að skapa stærra og tryggara atvinnusvæði.
„Verstar fyrir okkur eru ferðirnar fjórar um Fagradal sem tengjast vaktaskiptum í álverinu,“ segir Guðmundur Bjarnason, verkefnisstjóri hjá Alcoa Fjarðaáli. „Þegar færð er slæm geta lokast af algerir lykilstarfsmenn, en mest bitnar þetta á vaktaskiptum og hefur gerst nokkrum sinnum í vetur. Ef við komum ekki fólkinu á milli þarf að boða menn út á aukavaktir úr nágrenni álversins og koma fólki í gistingu.“