Fangelsi fyrir fíkniefnasmygl

Kókaín.
Kókaín. AP

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tvítuga konu í hálfs árs fangelsi, þar af fjóra mánuði skilorðsbundið, fyrir að flytja 113 grömm af kókaíni til landsins.

Konan var handtekin þegar hún kom með flugvél frá París í apríl árið 2006 en hún hafði falið kókaínið innvortis.

Konan var einnig ákærð fyrir búðarhnupl en hún stal vörum úr verslun að verðmæti rúmar 5 þúsund krónur. 

Fram kemur í dómnum, að konan játaði sök. Segir dómurinn, að konan hafi farið ótilneydd í ferð til Spánar í því skyni að flytja um 1 kg af kókaíni og   hagnast á því um eina milljón króna. Henni hafi verið ljóst að efnin voru ætluð til sölu- og dreifingar hér á landi og einnig þau 113,16 grömm, sem hún hafði með sér til landsins og faldi innvortis.  Ekkert liggi hins vegar fyrir um að konan hafi sjálf átt að selja eða dreifa efnum hér á landi.

Dómurinn segir, að um mjög sterkt kókaín hafi verið að ræða og aðstæður, sem ekki snertu hana, urðu til þess að hún hafði með sér aðeins lítinn hluta af því magni sem til stóð.  Á hinn bóginn beri að líta til þess, að konan var tiltölulega ung,  tæp tvö ár eru liðin frá því að hún framdi brotið og hún hafi verið samvinnufús við rannsókn málsins.

Þá segir að konan hafi verið í óreglu er hún framdi brotin en hafi nú snúið við blaðinu, sé hætt neyslu vímuefna og stundi nú fasta vinnu og hafi verið til sjós í heilt ár. Taldi dómurinn því rétt að skilorðsbinda hluta af refsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert