Vikulegum fundi borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er nú lokið en fundurinn var haldinn í Valhöll að þessu sinni. Talið var að fundurinn stæði til eitt og að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, myndi þá ræða við fréttamenn.
Fundurinn dróst hins vegar á langinn og lauk honum ekki fyrr en rúmlega tvö er Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson, sem sátu lengst á fundinum með Vilhjálmi, yfirgáfu Valhöll um kjallarainngang.
Vilhjálmur hefur enn ekki rætt við blaðamenn um það sem fram kom á fundinum og stöðu sína, eins og til stendur að hann geri, en gert er ráð fyrir að hann geri það innan tíðar.