Geir H. Haarde forsætisráðherra vill ekki svara því hvort hann styðji Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson til að taka sæti borgarstjóra. Vilhjálmur verði sjálfur að taka ákvörðun þar um. „Ég tek afstöðu til þess þegar þar að kemur,“ sagði Geir er hann ræddi við fréttamenn í Alþingishúsinu í dag.
„Það sem skiptir máli núna er það að allir borgarfulltrúar flokksins snúi sér að því fullu að vinna þau verk sem þeim hafa verið falin í þágu borgarbúa," sagði Geir ennfremur.
Aðspurður sagði Geir ekki telja þetta hafa veikt Sjálfstæðisflokkinn til lengri tíma litið. „Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur tekið á sig ágjöf og tekið vissar dýfur út af þessum málum en það er ekki ennþá komið fram á landsvísu," sagði Geir og bætti við að vonandi myndi það ekki gerast enda væri um einangrað mál að ræða sem snerti Reykjavíkurborg.