Handalögmál á þorrablóti

mbl.is/Júlíus

Slagsmál brutust út á þorrablóti í Njálsbúð í Landeyjum um helgina, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli. Má búast við tveimur kærum vegna líkamsárása þar en meðal annars brotnuðu tennur í þeim sem slógust.

Samkvæmt dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli var vikan og helgin annasöm vegna óveðurs og færðar.  Ein bílvelta var í Álftaveri, útafakstur á Sólheimasandi og ekið á brúarhandrið á Djúpá, austan Kálfafells í Skaftárhreppi.  Ekið var á grjót sem fallið hafði úr hlíðinni við Holtsá, undir Eyjafjöllum.  Jeppinn skemmdist töluvert og er óökufær.  Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum.

Alls voru 28 teknir fyrir of hraðan akstur í vikunni og sá sem hraðast ók var á  136 km hraða á vegi þar sem heimilt er að aka á 90 km hraða. 

Hross skemmdu tvær bifreiðar í Þykkvabæ með því að naga bifreiðarnar.  Hross voru í sjálfheldu við Þríhyrning og var þyrla Landhelgisgæslunnar fengin til að smala hestunum af fjallinu.  Það gekk vonum framar, samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglu. 

Beltagrafa sökk í vök á Bakkafjöru og má telja heppni að ökumaður komst út úr gröfunni ómeiddur, samkvæmt lögreglu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka