Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð

00:00
00:00

Vil­hjálm­ur Þ. Vil­hjálms­son odd­viti sjálf­stæðis­flokks­ins í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur, seg­ist ekki ætla að hætta sem borg­ar­full­trúi enda telji hann sig hafa axlað fulla ábyrgð í REI- mál­inu með því að leggja sig all­an  fram um að leggja allt upp á borð í mál­inu. Hann ætli nú að nota tím­ann og fara vel yfir stöðu sína áður en hann ákveði hvort hann taki aft­ur við sem borg­ar­stjóri.

Vil­hjálm­ur sagði að fund­ur borg­ar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins hafi haf­ist um hálf eitt í dag og að hann hafi verið  vel sótt­ur. Farið hafi verið yfir REI-málið í heild sinni og hann skilji vel þá óánægju sem uppi sé vegna þess. Hann viður­kenni einnig að hann hafi gert klaufa­leg mis­tök í mál­inu.

Spurður um af­stöðu sam­flokks­manna sinna sagði hann borg­ar­stjórn­ar­flokk sjálf­stæðismanna standa að baki sér en hann viður­kenni þó að staða sín hafi veikst mjög. Þá sagðist hann ætla að meta það á næstu mánuðum hvort hann telji rétt af sér að taka aft­ur við embætti borg­ar­stjóra að rúmu ári liðnu, eins og sam­komu­lag nú­ver­andi meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar kveði á um.  

Vil­hjálm­ur vildi ein­ung­is ræða við full­trúa nokk­urra fjöl­miðla í einu og voru blaðamenn prent­miðla látn­ir bíða frammi á gangi á meðan Vil­hjálm­ur ræddi við blaðamenn ljósvakamiðla.

Viku­leg­ur fund­ur borg­ar­full­trúa sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík var hald­inn í Val­höll að þessu sinni og stóð til að hon­um lyki um klukk­an eitt. Fund­ur­inn dróst hins veg­ar á lang­inn og lauk hon­um ekki fyrr en rúm­lega tvö er Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir og Gísli Marteinn Bald­urs­son, sem sátu lengst á fund­in­um með Vil­hjálmi, yf­ir­gáfu Val­höll um kjall­arainn­gang. 

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fer yfir málin í dag.
Vil­hjálm­ur Þ. Vil­hjálms­son fer yfir mál­in í dag. Árvak­ur/​Gísli Árna
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka