ÁTVR brýtur gegn EES-samningnum ef innlendum bjórframleiðendum er veitt sérstök undanþága frá reglum um að nýjar áfengistegundir á íslenskum markaði fari í reynslusölu áður en þær hljóta almenna dreifingu.
Sagt var frá því í 24 stundum í síðustu viku að tvær sunnlenskar bjórtegundir, sem koma á markað innan skamms, færu samkvæmt reglum ÁTVR ekki í búðir á Suðurlandi fyrr en þær hefðu farið í reynslusölu í Vínbúðinni Heiðrúnu og Vínbúðinni í Kringlunni.
Í kjölfar þess sendi ÁTVR frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að ÁTVR hafi lagt „sérstaka áherslu á að tryggja að íslensk framleiðsla sé til í þeim vínbúðum sem eru nálægt framleiðslustað.“
Einnig er tekið fram að í samræmi við vinnureglu ÁTVR verði „Sunnlendingum tryggður aðgangur að sunnlenskum bjór í vínbúðum í sinni heimabyggð um leið og hann kemur á markað.“
„Þetta er brot á EES-samningnum, það er alveg skýrt,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og sérfræðingur í Evrópurétti. „Það er alveg fráleitt að aðrar reglur gildi um innlenda framleiðslu en erlenda og brýtur gegn grundvallaratriði EES-samningsins.“
Einar S. Einarsson, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs ÁTVR, er ósammála túlkun Árna, en Einar skrifar undir áðurnefnda yfirlýsingu. Hann segir yfirlýsinguna hafa átt að skiljast sem svo að verslunarstjórar útsölustaða ÁTVR hafi sveigjanleika til að selja þær vörur í verslunum sínum sem þeir telji mesta eftirspurn vera eftir. „Og það er yfirleitt reyndin að staðbundin eftirspurn er það mikil og vínbúðirnar í kringum framleiðslustað tegundar hafa haft hana til sölu.“
Innflytjendur áfengis sem 24 stundir ræddu við gefa lítið fyrir þessa réttlætingu Einars, enda hafi áfeng vara sem talið er að verði vinsæl ekki fengið þá undanþágu sem nýjar íslenskar bjórtegundir virðast eiga að fá. „Þetta er algjör mismunun að mínu viti,“ segir Hákon Óttarsson, eigandi Vín tríó ehf., sem flytur inn Bavaria bjór.