Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að innganga Íslands í Evrópusambandið myndi skila þjóðinni mun meiri efnahagslegum ávinningi en aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu á sínum tíma. „Höfuðástæða aðildar Íslands að EES á sínum tíma var tollfríðindi fyrir fisk sem metin voru að verðmæti um tveggja milljarða íslenskra króna,“ sagði Árni Páll á fundi hjá norsku Evrópusamtökunum um síðustu helgi. Þetta segir hann samsvara 4-5 milljörðum króna nú, miðað við hlutfall af útflutningsverðmætum og landsframleiðslu. „Kostnaður heimila og fyrirtækja af íslensku krónunni er hins vegar í dag metinn á milli 50 og 100 milljarða króna á ári. Ekkert sýnir betur hversu gríðarlegir hagsmunir eru af því að fyrir íslensk fyrirtæki og heimili að fá stöðugan og viðskiptahæfan gjaldmiðil.“