Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hann ætti von á því að rætt yrði við aðila vinnumarkaðar á næstu dögum um það hvernig ríkisstjórn og eftir atvikum Alþingi ef lagabreytinga er þörf, geti komið að kjarasamningnum.
Sagði Geir að svo virtist, sem kjaraviðræður á almennum markaði væru langt komnar og ríkisstjórnin hafi ávallt sagt, að hún muni ekki skorast undan því að ræða við aðila vinnuarkaðar um það hvernig hún geti komið að málum og lagt gott til.
Verið var að ræða um kjarasamninga og efnahagsmál að ósk Guðjóns Arnars Kristjánssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins. Geir sagði m.a. að ríkisstjórnin hefði verið gagnrýnd við fjárlagagerðina fyrir opinber fjárútlát og fjárveitingar til framkvæmda. Nú væri að koma á daginn, að full þörf væri á þessum framkvæmdum, einkum í vegamálum, og hugsanlega þurfi að gera enn betur ef hægist um of á hjólum efnahagslífsins.
Þá sagðist Geir ekki útiloka, að mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskkvóta, verði endurskoðaðar með það fyrir augum að einhversstaðar verði bætt í.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði m.a. að sinnuleysi riksistjórnar varðandi kjarasamningana hefði ekki farið framhjá neinum. Það væri ábyrgðarleysi, að missa þessi mál frá sér og taka ekki þátt í því að ná fram niðurstöðu, sem bæði bæði stöðu þeirra sem lakast eru settir og nái tökum á efnahagsástandinu.