Komið hefur verið fyrir minningarbók í Þjóðmenningarhúsi sem þeir sem vilja heiðra minningu Bobby Fischers geta ritað nafn sitt í. Þá hefur verið skipulögð minningarstund um Fischer á laugardaginn í Laugardælakirkju.
Það er vinir og velunnarar Fischers hér á landi, sem hafa hlutast til um að koma bókinni upp. Verður bókin höfð frammi í anddyri hússins næstu 2 vikur en sðan varðveitt í Minjasafni Skáksambands Íslands.
Prestarnir sr. Gunnþór Ingason og sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson munu annast minningarathöfnina í sameiningu en Guðmundur G. Þórarinsson flytur minningarorð. Þá mun Hjörleifur Valsson leika 2 lög á fiðlu og Jóhann Sigurðarson, leikari, syngja lög sem Fischer voru kær.
Öllum er heimill aðgangur að þessari síðbúnu minningarstund meðan húsrúm leyfir, en kirkjan tekur aðeins um 60 manns í sæti.