Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur úthlutað styrkjum til atvinnumála kvenna að fjárhæð 15.790.000 krónur. Styrkjunum er ætlað að styðja við bakið á konum sem hafa áhuga á að hasla sér völl sem sjálfstæðir atvinnurekendur og eru með áhugaverða viðskiptahugmynd.
Að þessu sinni var um að ræða aukaúthlutun styrkja til atvinnumála kvenna fyrir árið 2007 vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar og því mestu úthlutað til kvenna á landsbyggðinni.
Alls bárust 115 umsóknir en 28 verkefnum er úthlutað styrk, allt frá 200.000 til 1.500.000 króna. Hæstu styrkina fá verkefnin Spákonuhof á Skagaströnd og búningaleiga á Akureyri.
50 milljónum úthlutað síðar á árinu
Samhliða stórauknu fjármagni til styrkja atvinnumála kvenna hefur verið ákveðið að efla til muna stuðning og ráðgjöf við konur sem hafa áhuga á að vinna með sínar viðskiptahugmyndir í samstarfi við aðrar konur um allt land. Vinnumálastofnun mun innan tíðar kynna þá þjónustu betur, en þessa dagana er verið að auglýsa eftir starfsmanni sem mun annast það verkefni innan stofnunarinnar, samkvæmt vef ráðuneytisins.
Seinna á þessu ári verður úthlutað 50 milljónum króna í styrki til atvinnumála kvenna.
Listi yfir styrkina