Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, sagði í gær að Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefði haft 23 milljarða króna tilboð undir höndum í hlut sinn í Reykjavik Energy Invest (REI) síðastliðið haust áður en meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sprakk. Samkvæmt heimildum 24 stunda var tilboðið frá Glitni banka en umdeildur samningur um einkarétt REI á sérfræðiþjónustu og erlendum verkefnum OR var þá enn í gildi.
„Við vildum selja okkar hlut þegar þetta mál kom upp. Við vorum komin með fast kauptilboð í hann og gátum selt okkar hlut fyrir 23 milljarða. Ég er með það skjalfest, og ætti að geta sýnt ykkur það við tækifæri. Og þá hefðum við verið lausir frá þessu,“ sagði Vilhjálmur á blaðamannafundi í gær.
Í samtali við 24 stundir eftir blaðamannafundinn sagði Vilhjálmur: „Við hefðum farið ágætlega fjárhagslega út úr því dæmi. Þetta tilboð er til.“
Vildu selja strax
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins héldu blaðamannafund 8. október síðastliðinn þar sem tilkynnt var að hlutur OR í REI yrði seldur á allra næstu mánuðum. Þessu var Framsóknarflokkurinn ekki sammála og því endaði meirihlutasamstarf flokkanna. Á þessum tíma var 20 ára samningur við REI um einkarétt á sérfræðiþjónustu og erlendum verkefnum OR ekki kominn fram í dagsljósið.
Áttar Vilhjálmur sig á áfellisdómnum?
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, segist muna vel eftir tilboðinu. „Mér þykir nokkuð magnað að Vilhjálmur skuli nefna þetta þegar legið hefur ljóst fyrir allt síðan að REI-málið komst upp, að það sem var kallað þjónustusamningur var einkaréttarsamningur til 20 ára á allri þekkingu Orkuveitunnar. Ég skil ekki að hann skuli draga það aftur upp sem málsvörn að einum aðila hefði átt að selja einkarétt á Orkuveitunni. Það er nákvæmlega það sem allir hafa verið sammála um að hafi verið mjög gagnrýnisvert í þessu máli og vekur enn og aftur upp spurningar um hvort Vilhjálmur átti sig á alvarleika þess áfellisdóms sem fellst í REI-skýrslunni.“
Í hnotskurn
Þjónustusamningurinn var um einkarétt REI á sérfræðiþjónustu og erlendum verkefnum OR til 20 ára. Hann kom ekki upp á yfirborðið fyrr en eftir að meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sprakk..