Vilja leyfa reykingaherbergi á skemmtistöðum

AP

Nokkr­ir þing­menn hafa lagt fram frum­varp á Alþingi um breyt­ingu á tób­aksvarna­lög­um og vilja leyfa reyk­ing­ar í sér­stöku reyk­inga­her­bergi á veit­inga­stöðum, að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum.

Meðal þeirra skil­yrða er að her­berg­in séu til­tölu­lega lít­il eða létt mann­virki utan húss sem veiti skjóli fyr­ir regni og vindi. Þá séu reyk­ingaaðstaðan aðskil­in frá veit­inga­rými þannig að gest­ir þurfi ekki að ganga þar um. Einnig þurfi starfs­fólk ekki að dvelj­ast þar.

Jón Magnús­son, þingmaður Frjáls­lynda flokks­ins, er fyrstu flutn­ings­maður frum­varps­ins en auk hans eru átta þing­menn Frjáls­lynda flokks­ins, Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks meðflutn­ings­menn.

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu seg­ir m.a. að miðað við þau vanda­mál, sem upp hafi komið varðandi fram­kvæmd tób­aksvarna­lag­anna í þeirri mynd sem þau eru nú, megi ætla að víðtæk­ari sátt mundi nást um tób­aksvarna­lög­in nái frum­varpið fram að ganga. Þá yrði síður hætta á því að lög­in væru brot­in vegna þeirra ágalla sem á þeim eru og tak­markaðra mögu­leika til að stöðva ólög­mætt at­hæfi og beita refsiviður­lög­um.

Þá sé líka ljóst að mörg­um finn­ist rétt­ur brot­inn á sér með svo hörku­leg­um ákvæðum um reyk­inga­bann, sem nú gildi á veit­inga- og gististöðum. Mik­il­vægt sé að ná fram víðtækri sátt um tób­aksvarn­ir en ein­ung­is þannig muni nást það meg­in­mark­mið lag­anna að draga úr tób­aks­reyk­ing­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert