Borg ehf. hefur ekki tilskilin leyfi

Einingaverksmiðjan Borg ehf. í Kópavogi auglýsir ranglega í dagblöðum í dag að starfsemi hennar rúmist innan heimilda fyrirliggjandi starfsleyfis, segir í yfirlýsingu frá Kópavogsbæ í dag.

„Af því tilefni vekur Kópavogsbær athygli á eftirfarandi:

Einingaverksmiðjan Borg hefur aðeins leyfi til að reka „steypueiningaverksmiðju", eins og fram kemur í starfsleyfi hennar, enda var í  starfsleyfisumsókn fyrirtækisins dags. 5. desember 2005 einungis sótt um heimild til „framleiðslu forsteyptra eininga". Sala og dreifing Borgar á steinsteypu er á hinn bóginn óheimil og ólögmæt.

Einingaverksmiðjan Borg óskaði eftir starfsleyfi hinn 16. október 2007 til að „framleiða, selja og dreifa steinsteypu á almennum byggingamarkaði". Þeirri umsókn var hafnað.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, sem gefur út starfsleyfi, segir í bréfi til Borgar dags. 9. nóvember 2007 að starfsleyfisumsókn fyrirtækisins hafi ekki gefið tilefni til þess að veitt væri víðtækara starfsleyfi. Í bréfi Heilbrigðiseftirlitsins dags. 28. nóvember 2007 segir að Borg sé óheimilt að stunda umrædda starfsemi. Í bréfi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til Heilbrigðiseftirlitsins dags. 16. janúar 2008 segir að niðurstaða byggingarnefndar sé sú að rekstur Borgar samrýmist ekki samþykktri notkun húsnæðisins auk þess sem reist hafi verið mannvirki á lóðinni sem ekki er í samræmi við byggingarnefndarteikningar.

Þrátt fyrir þetta heldur Borg ehf. rekstri þessum áfram.

Íbúar í hverfinu hafa haft ama af mengun, ónæði og aukinni umferð sem af ólögmætri starfsemi Einingaverksmiðjunnar Borgar stafar. Kópavogsbær hefur því kært fyrirtækið til lögreglu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert