Byggingarleyfi verktaka fellt úr gildi

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur úrskurðað að byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar hafi verið óheimilt að veita takmarkað byggingarleyfi vegna framkvæmda á reit við Einholt og Þverholt og hefur því fellt byggingarleyfi verktakans úr gildi.

Nefndin tók málið fyrir eftir að kæra barst frá íbúum vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa um að veita verktaka takmarkað byggingarleyfi. Þá var þess krafist að leyfið yrði fellt úr gildi ásamt því að kveðinn yrði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða fengist í málinu.

Athygli vekur að í úrskurði nefndarinnar kemur fram að byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar veitti Byggingarfélagi námsmanna takmarkað byggingarleyfi vegna reitsins hinn 27. desember, áður en umsókn um byggingarleyfið var afgreidd á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa sem fara átti fram hinn 8. janúar. „Þetta er auðvitað ekki í lagi. Það er afgreiðslufundur byggingarfulltrúa sem hefur vald til að veita svona leyfi að uppfylltum skilyrðum, en ekki embættismaður sem skrifar undir bréfið nokkrum dögum áður en erindið fékk þá afgreiðslu sem það átti að fá,“ segir Hjalti Steinþórsson forstöðumaður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að byggingarfulltrúi borgarinnar hafi gefið út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð án þess að borgaryfirvöld hefðu tekið afstöðu til umsóknar um leyfi til byggingar húss á lóðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert