„Meirihlutinn féll í fyrstu atkvæðagreiðslu,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, en tillaga Gísla Marteins Baldurssonar, formanns umhverfisráðs, um að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir yrði varaformaður ráðsins féll á jöfnu. Ásta Þorleifsdóttir, fulltrúi F-listans sem myndar meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, sat hjá.
Atkvæðagreiðslan var endurtekin og greiddi Ásta þá atkvæði með Þorbjörgu.
„Gísli og Þorbjörg héldu að Helga Jóhannsdóttir, sem er eiginkona Ómars Ragnarssonar, formanns Íslandshreyfingarinnar, væri líka á F-lista og því ætti Sjálfstæðisflokkurinn að fá varaformanninn,“ segir Ásta. Hún segir Helgu auðvitað í Sjálfstæðisflokknum en sjálf hafi hún búist við að verða varaformaður, sem eini fulltrúi F-lista.