Gert er ráð fyrir að fyrsta skóflustunga að nýju álveri í Helguvík verði tekin eftir mánuð. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði í fréttum Útvarpsins, að um 700 störf muni skapast við framkvæmdirnar.
Fram kom, að búið sé að tryggja orku fyrir fyrsta áfanga álversins með samningum við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur, samið hafi verið við Landsnet um flutning orkunnar og unnið sé að lokaútfærslum á rafmagnslínum. Mati á umhverfisáhrifum sé lokið og skipulagsbreytingum sveitarfélaganna að mestu lokið. Umhverfisstofnun hefur sent drög að starfsleyfi en endanleg umsókn um starfsleyfi hefur beðið afgreiðslu í rúma 2 mánuði.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagðist búast við að endanleg staðfesting Skipulagsstofnunar berist innan tveggja vikna og þá geti framkvæmdir hafist.
Hann segir að búið sé að leggja milljarða í
undirbúning álversins til að tryggja að öllum lögum og reglum sé fylgt
við undirbúninginn. Gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga álvers ljúki í
lok árs tvöþúsund og tíu og að þá verði ársframleiðslan hundrað og
fimmtíu þúsund tonn.