Hauge í miðpunkti norskra réttarhalda

Rune Hauge.
Rune Hauge.

Norski knattspyrnumannaumboðsmaðurinn Rune Hauge, sem væntanlegur er hingað til lands í dag  til að spila á Bridshátíð, er í miðpunkti réttarhalda, sem standa yfir í Ósló. Þar er Morgan Andersen, fyrrverandi framkvæmdastjóri knattspyrnufélagsins Lyn m.a. ákærður fyrir að hafa falsað samning við Nígeríumanninn John Obi Mikel, sem um tíma lék með félaginu. 

Norska blaðið Aftenposten segir, að tilkynnt hafi verið í morgun, að Hauge myndi sjálfur mæta í réttarsalinn í dag til að bera vitni en áður hafði verið talað um að hann myndi bera vitni gegnum síma. Von var á Hauge til Íslands í gær vegna Bridshátíðar en hann frestað för sinni hingað til lands og er nú væntanlegur síðdegis. 

Hauge og félag hans,  Libero/Profile sports, munu hafa haft milligöngu um að Mikel og þrír nígerískir félagar hans kæmu til Noregs árið 2004. Andersen sagði í réttarsalnum í morgun, að hann hefði upplifað þessi viðskipti Hauges sem hreina þrælasölu.

Samkvæmt reglum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, er óheimilt að versla með leikmenn, sem eru frá þriðja heiminum og undir 18 ára aldri.

Þá sagði Andersen að Hauge og félagar hans hefðu beitt hótunum. Sagðist hann hafa verið boðaður á fund til Hauge í apríl 2005. „Ég fékk að vita, að ef ég héldi fast við kröfur Lyn til Mikels þá ætti ég að sofa með skammbyssu undir koddanum það sem eftir væri dagsins," sagði Andersen. Spurningu lögmanns um hver hefði sagt þetta, svaraði Andersen, að það hefði verið Jack Karadas, talsmaður Hauge.

Andersen sagðist sjálfur ekki hafa óttast um líf sitt en haft áhyggjur af fjölskyldu sinni og látið lögregluna vita. Lögreglan gerði ekkert í málinu.

Fullyrt hefur verið, að þegar Mikel kom til Noregs hafi þegar verið búið að gera baksamninga um að hann yrði seldur áfram til Chelsea á Englandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert