Búist er við að fundahöld í kjaraviðræðum standi fram á kvöld. Flestir forystumenn sem rætt hefur verið við í dag segja óvarlegt að ætla að unnt verði að ljúka samningum fyrr en í fyrsta lagi um eða upp úr næstu helgi.
Í dag hefur mikið verið fundað, bæði formlega og óformlega, í húsnæði ríkissáttasemjara og víðar um borgina. Rætt hefur verið um sameiginlegar kröfur, launaramma og ýmis sérmál sem ekki er búið að ganga frá.
Hafa samningsaðilar m.a. verið að afla nýrra upplýsinga frá Hagstofunni og reikna út þýðingu þeirra tillagna sem ganga nú á milli aðila við samningaborðið. Enn er talsverður ágreiningur um kostnað við þær launabreytingar sem ræddar eru á grundvelli tilboðs Samtaka atvinnulífsins.
Þá er alls ekki séð fyrir hvort viðræðurnar verða leiddar til lykta við sameiginlegum hætti allra landssambanda og félaga ASÍ við Samtök atvinnulífsins eða hvort landssamböndin semja um launabreytingar hvert í sínu lagi, en tilboð SA byggist á því að allir fylgist að í samningunum. Viðmælendur sögðu að samflotið væri enn ,,mjög brothætt".
ASÍ- samböndin vilja sjá hærri launatölur og óskuðu eftir frekari skýringum SA í gær. Var reiknað með að SA svaraði því í dag.
Framkvæmdastjórn SA kom saman til fundar fyrir hádegi og eftir hádegi áttu formenn landssambanda og stærstu félaga fund með SA m.a. um sameiginleg mál sem reynt er að ganga frá samhliða viðræðum um launaliði samninga.
Engar nýjar upplýsingar hafa borist frá stjórnvöldum til samningsaðila um hvað þau eru tilbúin að gera til að greiða fyrir gerð samninga en verkalýðsforystan reiknar með að hún muni óska eftir fundi með ráðherrum þegar ljóst verður hvort líklegt sé að kjarasamningar náist.