Létta merkingar á Reykjanesbraut

 Starfsmenn Vegagerðarinnar eru að laga merkingar og þrengingar við framkvæmdasvæði Reykjanesbrautarinnar. Reiknað er með að útboð á þeim hluta framkvæmdanna við tvöföldun sem eftir er verði auglýst í byrjun næsta mánaðar.

Umferðin hefur gengið illa um framkvæmdasvæði Reykjanesbrautarinnar í óveðursköflunum að undanförnu, óhöpp hafa orðið og vegurinn lokast vegna blindu og snjósöfnunar. Vegagerðin tók yfir umsjón með merkingum í desember þegar verktaki tvöföldunarinnar sagði sig frá verkinu. Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar, segir að steinsteypublokkirnar sem notaðar eru í þrengingum við framkvæmdasvæðið safni að sér snjó og valdi erfiðleikum fyrir umferðina. Vegagerðin vildi létta merkingarnar með því að færa blokkirnar lengra frá og koma upp léttari skiltum. Verið sé að vinna að því.

Að sögn Jónasar verður lögð áhersla á það þegar framkvæmdir hefjast að nýju að lokið verði við gatnamótin við Vogaafleggjara og býst hann við að á vormánuðum verði hægt að hleypa umferð á tvöfalda kaflann alveg að Grindavíkurvegi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka