Samningamenn aðila vinnumarkaðarins ætla í dag að reikna út kostnað við tillögur sem landssambönd ASÍ lögðu fram á fundi með Samtökum atvinnulífsins í gærkvöldi. Vonast er eftir að samkomulag takist um nýja kjarasamninga um eða eftir helgi á grundvelli þeirra tillagna sem nú liggja fyrir.
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins sem sat samráðsfundinn, sagði að á fundi formanna landssambanda innan ASÍ hefði verið ákveðið að athuga hvort grundvöllur væri fyrir því að lenda samningamálunum með óformlegum þreifingum við SA. Menn hefðu því sett upp gróft módel og viljað fá viðbrögð SA við því. Guðmundur sagði að landssamböndin hefðu mismunandi áherslur og væru að leita að nálgun sem allir aðilar gætu sætt sig við. Tilgangur fundarins hefði verið að athuga hvort grundvöllur væri fyrir því að samræma þessi ólíku sjónarmið.
Guðmundur sagði að yfirstandandi sólarhringur gæti ráðið úrslitum um framhaldið. Ef þessi tilraun skilaði ekki árangri færu blokkirnar innan ASÍ líklega hver í sína átt í lokafasa kjaraviðræðnanna; Starfsgreinasambandið í eina, iðnaðarmenn í aðra og verslunarmenn í þá þriðju. Guðmundur sagði að SA mundi fara yfir hugmyndirnar sem forysta ASÍ kynnti í gær og svara þeim í dag.