Mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eru aftur komin á dagskrá borgaryfirvalda eftir nýjustu meirihlutaskiptin. Engar ákvarðanir hafa verið teknar en í haust lágu fyrir frumdrög að skýrslu um gatnamót á þremur hæðum og aðliggjandi stokka. Hugmyndin er að setja hluta umferðar um Kringlumýrarbraut í stokk frá því sunnan við Listabraut og norður fyrir Miklubraut en nærumferð verður á yfirborði. Lagt er til að Miklabrautin verði í stokki frá Stakkahlíð og vestur fyrir Rauðarárstíg. Ofan á stokknum verður gata á yfirborði með gatnamót við Stakkahlíð, Lönguhlíð, Reykjahlíð og Rauðarárstíg.
Á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar er gert ráð fyrir þriggja hæða gatnamótum þar sem bæði Kringlumýrarbraut og Miklabraut eru í fríu flæði, en allir beygjustraumar um hringtorg. Kringlumýrarbraut liggur neðst, allt að 10 m neðan við núverandi land, í lokuðum stokki. Miklabraut er niðurgrafin um u.þ.b. 4 m og efst er hringtorgið í 2 til 2,5 m hæð yfir núverandi landi.