Myndarleg viðbygging hefur nú risið utan við Edinborgarhúsið á Ísafirði. Húsið er úr snjó og er aðallega byggt með þarfir reykingarmanna í huga.
„Hugmyndasmiðurinn er Þórir Traustason, fráfarandi vert. Hann reifaði þessa hugmynd við mig og við ákváðum að ráðast bara í þetta. Við hringdum í Barða gröfukall sem kom og mokaði upp góðum haug“, segir Erik Newman sem nýverið keypti meirihlutann í rekstri Kaffi Edinborgar.
„Þetta er til að bregðast við því leiðindaveðri sem hefur verið upp á síðkastið, en reykingarfólk hafði af og til stolist til að reykja inni á baði. Við ákváðum að koma til móts við það með því að byggja bara sérstakt hús“, segir Erik.
„Það á að rigna fljótlega, en við ætlum að styrkja húsið með stoðum, í það minnsta ganginn. Svo frystir vonandi fljótlega aftur“, segir Erik Newman sem vonar að húsið standi í það minnsta fram yfir helgi.
Bæjarins besta